Sumir vilja meina að líf hvers og eins sé fyrirfram ákveðið. Svona ef við gerum ráð fyrir því að það sé rétt, er það þá þannig að það er gengið á röðina og pikkað út hverjir verði farsælir, hverjir fá stóran skammt af sorgum, missi, fátækt, óhamingju og svo mætti áfram telja. Hvað er það þá sem ræður valinu? Og hversvegna ætli það sé þannig að sumir fái stóran skammt af sorgum á meðan aðrir komast í gegnum lífið nær áfallalaust? Held í raun að engin svör sé við þessum spurningum en maður veltir þessu svona fyrir sér.
Að stórum hluta hef ég átt gott og farsælt líf. Þakka daglega fyrir það að eiga þrjú heilbrigð og yndisleg börn, góða fjölskyldu, hef fáa ástvini misst og já þakka Guði einnig fyrir það að vera sjálf heilbrigð og til staðar fyrir börnin mín.
Ég nefnilega held ennþá í barnatrúna. Þó stundum sé erfitt að trúa því að karlinn þarna uppi sé til þegar maður heyrir t.d. af krabbameinsveiku barni, stórum missi einhvers eða stórum áföllum og svo mætti áfram telja. Þá er það þannig að það veitir manni oft ró og frið á sálinni að geta beðið fyrir þeim sem maður elskar, þeim sem eiga bágt og svo fram eftir götunum.
Á hverju kvöldi fer ég alltaf með litla bæn, bið fyrir heilbrigði, hamingju og farsæld til handa börnunum mínum, foreldrum, náinna ættingja, þeirra sem minna mega sín, þeim sem berjast fyrir lífi sínu, fjölskyldum þeirra og já alla þá sem koma upp í hugann. Ég þykist ekki betri persóna fyrir vikið, en þetta veitir mér vellíðan og ró. Og ég vil trúa að það sé eitthvað gott við bænir fólks, einhver máttur eða orka sem ég eiginlega get ekki skýrt nánar sem fylgi þeim.
Æji er komin út í eitthvað væmnisbull ég veit það, en þetta er brot af því sem í gegnum huga minn hefur farið upp á síðkastið, of mikil þögn og rólegheit í kringum mig (lesist engin börn heima) og jahh þá flýgur nú ýmislegt í gegnum kollinn skal ég ykkur segja.
Lofa að koma með eitthvað hressilegra og skemmtilegra í næsta bloggi. Hafið það sem allra best
Flokkur: Bloggar | 1.7.2007 | 03:17 (breytt kl. 03:44) | Facebook
Athugasemdir
Þykir þetta reyndar allt annað en væmni. Góður pistill hjá þér. Hlýtur að vera eitthvað í uppeldinu hjá okkur því þetta veitir manni ró og þegar maður getur ekkert meira gert fyrir einhvern sem á í erfiðleikum þá er eðlilegt að það rói sálartetrið að hafa einhvern æðri til að biðja um að redda málunum.
Óskar, 1.7.2007 kl. 10:53
Já þetta reddar sálartetrinu, ég geri þetta saman, ég er líka heppin á 5 heilbrigð börn og yndislegan eiginmann, meira er ekki hægt að fara fram á. Við sköpum okkar eigin hamingju það gerir það enginn annar fyrir okkur.
Helga Auðunsdóttir, 1.7.2007 kl. 14:05
Fallegur pistill hjá þér Sólrún. Ég hef valið að trúa því að við fæðumst oft og okkur séu úthlutuð viss verkefni í hverri heimsókn á jörðina. Fólk sem gengur svo til áfallalaust í gegnum lífið eru ungar sálar sem eiga margt ólært. Með þessa trú í farteskinu er einhvern vegin hægt að sjá einhvern tilgang með því að sumir deyji ungir.
Jóna Á. Gísladóttir, 3.7.2007 kl. 00:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.